Warning: "continue" targeting switch is equivalent to "break". Did you mean to use "continue 2"? in /var/www/virtual/kaffiborgir.is/htdocs/templates/kaffiborgir/functions.php on line 201

Warning: count(): Parameter must be an array or an object that implements Countable in /var/www/virtual/kaffiborgir.is/htdocs/templates/kaffiborgir/library/Designer/Content/SingleArticle.php on line 198

Dimmuborgir

Dimmuborgir eru hraunborgir austan Mývatns sem draga nafn sitt af þeim einstöku hraunmyndunum sem einkenna svæðið.  Talið er að þær hafi myndast í miklu eldgosi í Þrengslaborgum og Lúdentarborgum fyrir u.þ.b 2300 árum.  U.þ.b. 200 árum fyrr varð Hverfjall/Hverfell til í kröftugu en skammvinnu þeytigosi.

Aðeins er vitað um einn annan stað með sambærilegum hraunmyndunum en sá er á miklu dýpi í Atlantshafi.  Það er því sannarlega hægt að segja að Dimmuborgir séu einstakur staður.

Margir hafa lagt leið sína um Dimmuborgir í gegnum tíðina, þar sem klettar og drangar taka á sig óendanlegar kynjamyndir í bland við trjágróður og fölbreytta flóru.  Segja má að Dimmuborgir breytist með árstíðunum og þar er ekki síður dulúðugt á hausin og veturna en á vorin og sumrin.  Í Dimmuborgum er upplagt að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og heimsækja veröld trölla og annarra vera í huliðsheimum.

Í Dimmuborgum eru góðar aðstæður til gönguferða og þar má stunda náttúruskoðun og ljósmyndun á öllum tímum ársins. Um Dimmuborgir ligga vel merktar og fjölbreyttar gönguleiðir.

 

Gönguleið Lengd  Tími Lýsing
Litli hringur 570 m  10-15 mín  Auðvelt
Stóri hringur 840 m  20 mín  Auðvelt
Kirkjuhringur 2.250 m  60 mín  Auðvelt
Mellandahringur 1.200 m  30 mín  Auðvelt
Krókastígur 800 m  40 mín  Meðal/Erfitt

 

Að auki er merkt gönguleið á milli Dimmuborga og Reykjahlíðar um Hverfjall/Hverfell, alls um 8 km.  Ætla má að það taki u.þ.b. tvær til þrjár klukkustundir að ganga þessa leið.  Hægt er að velja á milli tveggja mismunandi uppgönguleiða á Hverfjall/Hverfell, þar sem önnur leiðin tekur töluvert meira á en hin.

Þegar komið er að Dimmuborgum er upplagt að staldra við hjá útsýnisskífunni sem er steinsnar frá þjónustuhúsinu.  Þaðan er einstakt útsýni yfir Dimmuborgir, Mývatn og hinn svipmikla fjallahring.

Síðastliðin ár hefur fálki verpt í Dimmuborgum, í sjónfæri frá þjónustuhúsinu.  Á vorin og fram eftir sumri má úr fjarlægð fylgjast með varpinu og ungunum komast á legg en ekki má fara nálægt hreiðrinu.

Mývatn er heimsfrægt fyrir fjölbreytt fuglalíf og svæðið er í miklu uppáhaldi hjá fuglaskoðurum um allan heim.  Í Mývatnssveit eru á sumrin einar 15 tegundir anda og er áætlað að um 8.000 andapör verpi þar að jafnaði ár hvert.

Í Mývatnssveit er ótrúlega fjölbreytt náttúrufar á tiltölulega litlu svæði og aðgengi að flestum vinsælustu náttúruundrunum er í flestum tilfellum gott.  Kalla má sveitina veisluhlaðborð fyrir ljósmyndara og útivistarunnendur og skipa Dimmuborgir þar stóran sess.  Í Mývatnssveit má svo sannarlega njóta náttúrunnar í allri sinni dýrð.

Við Mývatn er að finna yfir 250 tegundir plantna, svo auðvelt er fyrir áhugasama að gleyma sér í flórunni.  Í Dimmuborgum er gróðurinn viðkvæmur og margar tegundir plantna gróa þar í harðbýlu umhverfi.  Reynt er að vernda gróðurinn eins og kostur er og það sama á við um hraun- og jarðmyndanir.  Gestir í Dimmuborgum eru þess vegna vinsamlega beðnir að fylgja merktum gönguleiðum og leggja þannig sitt af mörkum við varðveislu þessa einstaka staðar.